Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Valmynd

Stuttnefja

Stuttnefja er algengur svartfugl við strendur Íslands sem verpir í klettabjörgum.

Stuttnefja á flugi

Fræðiheiti: Uria lomvia
Veiðitímabil: 1. september – 25. apríl
Háfaveiðar: 1. júlí – 15. ágúst
Nytjar: Matbráð
Eggjataka: Hefð fyrir eggjatöku háð hlunnindarétti
Válisti Náttúrufræðistofnunar: VU - Í nokkurri hættu
Heimsválisti: LC - Ekki í hættu

Stuttnefja er algengur fugl við Íslandsstrendur. Henni hefur fækkað þó nokkuð á síðustu 40 árum. Nú fara talningar á stuttnefju fram í völdum fuglabjörgum víðs vegar um landið. Hægt er að nálgast tengla á vöktunarskýrslur hér neðar á síðunni.

Stuttnefja hefur hvíta bringu en svart höfuð og bak. Við svartan gogginn hefur hún hvíta rönd á jaðrinum. Stuttnefju svipar mjög mikið til langvíu og þar sem þær verpa báðar í klettabjörgum getur verið erfitt að greina á milli þeirra.

Meira um stuttnefju á vef Náttúrufræðistofnunar

Stuttnefjur í bjargi
Mynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Veiði á stut­tne­fju

Stuttnefjuveiðar hafa dregist mikið saman á síðustu 20 árum. Um aldamótin voru veiddar um 20 þúsund stuttnefjur árlega en í dag eru þær einungis um 2 þúsund.

Aðallega er stunduð skotveiði á stuttnefju og samkvæmt reglugerð númer 765/2017 er heimilt að veiða stuttnefju frá 1. september til 25. apríl.

Á takmörkuðum svæðum, þar sem eggja- eða ungataka stuttnefju taldist til hefðbundinna hlunninda þann 1. júlí 1994 og veiðirétthafi er handhafi hlunnindaveiðikorts, má veiðirétthafi háfa stuttnefju og nýta egg hennar. Samkvæmt reglugerð númer 456/1994 er veiðirétthafa heimilt að háfa stuttnefju frá 1. júlí til 15. ágúst. Nú til dags er stuttnefja lítið háfuð en egg hennar eru enn nýtt.

Hér má skoða veiðitölur stuttnefju og annarra tegunda frá árinu 1998.

Stuttnefjur sitja á sjó
Mynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Stjór­nunar- og vern­daráætlun stut­tne­fju

Ísland vinnur nú að sameiginlegri stjórnunar- og verndaráætlun fyrir stuttnefju með Kanada, Grænlandi og Noregi, undir hatti CAFF. Hópurinn hittist á vinnustofu árið 2022 og mun hittast aftur á Íslandi í lok janúar árið 2026 ásamt hagsmunaaðilum sem hefur verið boðið að þátt í vinnunni.

Náttúruverndarstofnun tekur þátt í vinnunni fyrir Íslands hönd, ásamt sérfræðingi frá Náttúrustofu Norðausturlands sem sér um vöktun á stofninum. Íslenskir hagsmunaaðilar sem munu taka þátt í vinnustofunni eru Fuglavernd og SKOTVÍS.

Áætluð verklok sameiginlegu áætlunarinnar eru árið 2027 og verður afurðin áætlun sem hvetur og hjálpar aðildaríkjum að stýra stuttnefjustofnum sínum.

Vöktun stuttnefju

Náttúrustofa Norðausturlands sér um vöktun stuttnefjustofnsins og stofna annarra bjargfugla. Þau skila árlega inn skýrslu um stöðu stofnsins ásamt fleiri upplýsingum. Hér að neðan má finna skýrslur þeirra.