Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Valmynd

Leyfisveitingar á friðlýstum svæðum

Á friðlýstum svæðum þarf leyfi Náttúruverndarstofnunar fyrir kvikmynda- og ljósmyndaverkefnum, rannsóknum, viðburðum og framkvæmdum. Auk þess þarf leyfi til þess að fljúga drónum í afþreyingarskyni.

Drónaleyfi og reglur um drónaflug

Drónaflug er heimilað á vissum friðlýstum svæðum að fengnu leyfi Náttúruverndarstofnunar. Það er mikilvægt að hafa í huga að trufla ekki upplifun annarra gesta á svæðinu og að náttúran, sérstaklega fuglalífið, sé verndað fyrir truflunum vegna flugsins. Innheimt er fyrir öll leyfi samkvæmt gjaldskrá Náttúruverndarstofnunar.

Rannsóknarleyfi

Þau sem hafa hug á að stunda rannsóknir innan friðlýstra svæða, fylla út umsókn um leyfi í þjónustugátt. Í umsókninni kemur fram lýsing á fyrirhuguðum rannsóknum sem óskað er leyfis fyrir og staðsetningu þeirra ásamt upplýsingum um áætlaðan fjölda starfsfólks, fyrirhugaða aðstöðu og tækjabúnað, tímasetningu rannsóknar og tímalengd. Sækja þarf um leyfið með minnst 30 daga fyrirvara.

Kvikmyndaleyfi

Þau sem hafa hug á að stunda kvikmyndagerð, auglýsingagerð eða aðra slíka starfsemi innan friðlýstra svæða, fylla út umsókn um leyfi í þjónustugátt Náttúruverndarstofnunar. Umsókn um leyfi þarf að berast Náttúruverndarstofnun með minnst 30 daga fyrirvara. Innheimt er fyrir öll leyfi samkvæmt gjaldskrá Náttúruverndarstofnunar.

Viðburðir

Hér er hægt að sækja um leyfi til þess að halda aðra viðburði en fjallað er um hér að ofan. Dæmi um viðburði geta verið íþróttamót, samkomur, brúðkaup, afmæli, ættarmót, tónleikar, kvikmyndasýningar og fleira. Sótt er um leyfi vegna viðburðahalds með eins löngum fyrirvara og hægt er.

Framkvæmdaleyfi á friðlýstum svæðum

Náttúruverndarstofnun er leyfisveitandi allra framkvæmda á friðlýstum svæðum. Sem dæmi um framkvæmdir má nefna allt jarðrask, lagning göngustíga, mannvirkjagerð og önnur innviðauppbygging. Friðlýsingarskilmálar og stjórnunar- og verndaráætlanir eru hafðar til grundvallar við leyfisveitingar ásamt lögum um náttúruvernd. Sækja þarf um leyfið með minnst 30 daga fyrirvara.

Leyfi til aksturs utan vega

Bannað er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega. Náttúruverndarstofnun er heimilt að veita sérstakt leyfi til að aka utan vega vegna viðhalds skála og neyðarskýla, og vegna kvikmyndagerðar ef það er ekki hægt vinna þessi störf á annan hátt. Þessar heimildir eru til staðar svo framarlega sem ekki sé hætta á náttúruspjöllum. Náttúruverndarstofnun sér um að veita leyfi til að aka utan vega vegna starfa við viðhald fjallaskála og neyðarskýla.