Veiðitímabil 2025
Veiðitímabil rjúpu fyrir árið 2025 hefur verið staðfest. Hér má nálgast upplýsingar um hve langt rjúpnaveiðitímabilið er á hverju veiðisvæði fyrir sig sem og upplýsingar um veiðitímabil annarra veiðitegunda á Íslandi.

Almennt um rjúpu
Fræðiheiti: Lagopus muta
Nytjar: Matbráð
Eggjataka: Ekki hefð fyrir eggjatöku
Válisti Náttúrufræðistofnunar: NT - Í yfirvofandi hættu
Heimslisti: LC - Ekki í hættu
Rjúpa er hænsnafugl af undirætt orrafugla og er útbreiddur varpfugl um land allt. Hún verpir að mestu á láglendi í móum og graslendi en í september heldur hún til fjalla þar til tekur að snjóa á láglendi. Þá færir hún sig aftur neðar og heldur sig fyrir ofan snjólínu.
Rjúpan er jurtaæta og étur laufblöð, blóm, ber, fræ, æxlilauka, rekla, brum og sprota. Rjúpur verða kynþroska ársgamlar, frjósemi er mikil og hver kvenfugl verpir að jafnaði 11–12 eggjum. Afföll eru hins vegar hröð og hjá fyrsta árs fuglum eru þau 80–90% og 40–80% hjá eldri fuglum. Til lengri tíma hefur rjúpnastofninum hrakað, en veiði hefur þó minnkað síðan rjúpan var friðuð á árunum 2003 og 2004 og í framhaldi sett sölubann á afurðir hennar.
Rjúpan er vinsælasta veiðibráð á Íslandi og hefur verið nýtt allt frá landnámi. Rjúpnaveiðar eru hluti af menningu þjóðarinnar, bæði veiðin sem slík ásamt því að rjúpnasteik og ilmurinn af henni eru ómissandi hluti jólahátíðarinnar hjá mörgum Íslendingum.

Rjúpnaveiði
Síðustu tíu ár hefur rjúpnaveiði sveiflast í kringum 40 þúsund rjúpur á ári, með lágpunkti upp á 28 þúsund og hápunkti upp á 60 þúsund. Mörgum þykir veturinn ekki hefjast fyrr en rjúpnaveiðin hefst í lok október og öðrum þykir jólaundirbúningurinn ekki vera hafinn fyrr en rjúpnasteikin hefur verið tryggð.
Rjúpa er lykiltegund í sínu vistkerfi og er til að mynda mikilvægasta fæða fálkans. Veiðistjórnun á rjúpu hverfist um sjálfbærni og veiðimenn eru ávallt hvattir til þess að sýna hófsemi við veiðar og taka einungis það sem þeir þurfa.
Stjórnunar- og verndaráætlun rjúpu
Áætlunin var gefin út haustið 2024 og var þá sú fyrsta sinnar tegundar fyrir dýrastofn á Íslandi. Hún er mikilvægur liður í því að stuðla að sjálfbærum veiðum og að rjúpnastofninn haldi sínu hlutverki sem lykiltegund í sínu vistkerfi.
Hinir ýmsu hagsmunaaðilar komu að vinnu áætlunarinnar og gerir hún sjónarmiðum þeirra allra hátt undir höfði. Áætlunin á því að auka gagnsæi og fyrirsjáanleika veiðistjórnunarkerfisins svo traust ríki á milli opinberra stofnana, hagsmunaaðila og almennings.
Vöktun rjúpu
Náttúrufræðistofnun vaktar rjúpnastofninn á Íslandi og skilar árlega skýrslu um stöðu stofnsins, ásamt fleiri upplýsingum. Hægt er að lesa almennt um vöktun rjúpnastofnsins hjá Náttúrufræðistofnun.
