Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Valmynd

Reglur um drónaflug

Almennt er notkun dróna í afþreyingarskyni heimil á friðlýstum svæðum með leyfi frá Náttúruverndarstofnun. Á nokkrum stöðum gilda svæðisbundnar takmarkanir. Samgöngustofa gefur út reglur um notkun dróna sem þarf að fylgja hvar sem er á öllu landinu.

Þrjú hreindýr ganga í snjó

Drónaleyfi

Hér er hægt að sækja um leyfi til þess að fljúga drónum á friðlýstum svæðum í þjónustugátt Náttúruverndarstofnunar. Til þess að fá að lenda þyrlum og flugvélum innan friðlýstra svæða þarf einnig að sækja um leyfi til Náttúruverndarstofnunar.

Reglur Samgöngustofu um notkun dróna

Ýmsar reglur gilda um drónaflug, meðal annars til að tryggja öryggi og friðhelgi annarra. Á vef Samgöngustofu má finna skýrar og gagnlegar upplýsingar um hvað ber að hafa í huga þegar flogið er dróna á Íslandi, til dæmis um leyfi, hámarksflughæð, og hvar má eða má ekki fljúga.

Leiðbeiningar fyrir almenna notkun dróna á friðlýstum svæðum.

Náttúruverndarstofnun vekur athygli á að í náttúruverndarlögum kemur fram ákvæði um almenna aðgæsluskyldu þar sem fram kemur að öllum er skylt að ganga vel um náttúru landsins og sýna ítrustu varúð þannig að henni verði ekki spillt. Við framkvæmdir, starfsemi, rekstur og önnur umsvif sem áhrif hafa á náttúruna er allt gert til þess að koma í veg fyrir náttúruspjöll.

• Einungis er gengið eftir merktum göngustígum og óheimilt er að fara inn á lokuð svæði.
• Virða þarf umgengnisreglur sem gilda um svæðið.
• Drónum er ekki flogið í nágrenni og yfir fólki og forðast að trufla friðsæld svæðisins og upplifun gesta, öryggi þeirra og persónuvernd eins og hægt er.
• Dróna er aldrei flogið nálægt dýrum eða fuglum, hvorki nálægt hreiðrum né á varptíma eða á þeim tíma sem telst viðkvæmur fyrir dýr og fugla.
• Flugtíma er haldið í lágmarki og flug fer fram utan þess tíma sem flestir gestir eru á svæðinu.
• Ef flug dróna hefur truflandi áhrif á fuglalíf eða dýralífið er því hætt samstundis.
• Stjórnandi drónans ber ábyrgð á loftfarinu á svæðinu, að það skaði ekki fólk, dýralíf, eða náttúruna og að það skilji ekki eftir sig varanleg ummerki á neinn hátt. Ekki má skilja eftir hluta drónans á svæðinu heldur finna og endurheimta drónann og alla hluta hans ef hann brotlendir eða bilar.
• Af öryggisástæðum þarf sá sem stjórnar dróna að klæðast merktum fatnaði svo hægt sé að auðkenna viðkomandi.
• Óheimilt er að fljúga innan 200 metra fjarlægðar frá fuglabjörgum á varptíma. Utan varptíma er óheimilt að fljúga nær fuglabjörgum en 50 metra ef fugl er í bjarginu.
• Óheimilt er að trufla dýralíf.
• Allur akstur utan vega er bannaður.

Að öðru leyti þarf að haga flugi dróna í samræmi við reglugerð um starfrækslu fjarstýrðra loftfara og leiðbeiningar á vef Samgöngustofu. Náttúruverndarstofnun bendir á að drónar sem eru notaðir í atvinnuskyni þarf að skrá sérstaklega hjá Samgöngustofu. Leyfi landeigenda eða sveitarfélags gæti þurft fyrir drónaflugi.

Lakagígar drónamynd

Svæðisbundnar reglur um drónaflug

Á mörgum friðlýstum svæðum gilda sérstakar reglur um notkun dróna. Reglurnar eru settar til að vernda dýralíf, gróður og friðhelgi náttúrunnar og tryggja að gestir geti notið svæðisins án truflunar. Nánari upplýsingar má finna í friðlýsingarskilmálum og í stjórnunar- og verndaráætlunum hvers svæðis.

Reglur um notkun dróna í Vatnajökulsþjóðgarði

Innan Vatnajökulsþjóðgarðs gilda bæði almennar og svæðisbundnar reglur um notkun dróna í afþreyingarskyni. Reglunum er ætlað að stuðla að eftirfarandi markmiðum Vatnajökulsþjóðgarðs:

- Verndun dýralífs
- Öryggi gesta
- Gæðaupplifun gesta
- Mengunarvarnir