Fræðiheiti: Anser anser
Veiðitímabil: 20. ágúst – 15. mars
Nytjar: Matbráð
Eggjataka: Hefð fyrir eggjatöku háð hlunnindarétti
Válisti Náttúrufræðistofnunar: NT - Í yfirvofandi hættu
Heimsválisti: LC - Least Concern
Grágæs (Anser anser) er af andaætt (Anatidae) og ættkvísl grárra gæsa (Anser). Hún er stærsta gæsategund landsins, um þrjú og hálft kíló að þyngd. Hún er grasbítur og dvelur mest á láglendi, sér í lagi í mýrlendi og grónum áreyrum við stórfljót á Norðaustur- og Austurlandi og í Breiðafjarðareyjum.
Grágæsir halda sig helst í hópum að undanskyldum pörum á varptíma. Hún er að mestu farfugl og á flugi má sjá þær raða sér upp í oddaflug þar sem skipst er á að leiða hópinn. Hún dvelur aðallega í Bretlandi, þar helst í Skotlandi, á veturna en veturseta hennar hefur aukist hérlendis á síðustu árum í takt við hlýnandi veður og mögulega aukna kornrækt.
Nytjar af grágæs eru kjöt, egg og dúnn. Stofninn hefur verið í rénun á síðustu árum og því var sett sölubann á grágæs og afurðir hennar síðla sumars 2023.

Veiði á grágæs
Grágæs er vinsæl veiðibráð á Íslandi. Heimilt er að veiða grágæs frá 20. ágúst til 15. mars. Árið 2023 var sölubann sett á grágæs og afurðir hennar og er það enn í gildi.
Veiðirétthafar á hlunnindajörðum mega taka grágæsaregg en skulu skilja að minnsta kosti tvö egg eftir í hreiðri.
Hér má skoða veiðitölur grágæsar og annarra tegunda frá árinu 1998.

AEWA samstarfið
Grágæs fellur undir alþjóðlegan samning um verndun afrísk-evrasískra sjó- og vatnafugla (AEWA) sem Ísland hefur verið aðili að síðan 2013. Hann nær til fjölmargra fuglategunda sem verpa eða hafa viðkomu á Íslandi.
Með samningnum hefur sýnilegum alþjóðlegum árangri verið náð í að tryggja vernd tegunda sem hafa verið í niðursveiflu og jafnvel útrýmingarhættu, til dæmis vegna óheftra veiða eða eyðileggingar á mikilvægum varp- og áningarstöðum tegundanna. Virk þátttaka Íslands í AEWA hefur því skýran ávinning fyrir náttúruvernd hér á landi.
Árið 2016 var stofnaður samstarfsvettvangur innan AEWA um stýringu á stærð gæsastofna (European goose management plan, EGMP). Hægt er að fræðast meira um grágæsavinnu EGMP í hlekknum hér að neðan.
Vöktun grágæsar
Vöktun grágæsastofnsins er samstarfsverkefni Íslendinga og Breta undir EGMP. Bæði er talið á Íslandi og í Bretlandi og nýlega hafa GPS/GSM merkingar bæst við. Hægt er að fræðast meira um vöktunaráætlun grágæsastofnsins hjá Náttúrufræðistofnun en í hlekknum hér að neðan er hægt að skoða niðurstöður vöktunarskýrsla sem styrktar voru af Veiðikortasjóði.
