Á síðustu öld urðu meðal annars bættar samgöngur og hnattvæðing til þess að fólksflutningar og milliríkjaverslun jukust verulega. Þetta varð meðal annars til þess að ýmsar lífverur, bæði dýr og plöntur, voru fluttar út fyrir sín náttúrulegu heimkynni og útbreiðslusvæði til svæða sem áður voru þeim lokuð af líffræðilegum og landfræðilegum orsökum. Þessir flutningar voru ýmist viljandi eða óviljandi.
Aðfluttar lífverur geta í ýmsum tilfellum haft jákvæð áhrif á lífskomu manna og eru margar framandi tegundir notaðar í stórum stíl, til dæmis í landbúnaði, garðrækt, skógrækt eða til skrauts og yndisauka. Á hinn bóginn geta framandi lífverur haft áhrif á og ógnað líffræðilegri fjölbreytni í nýjum heimkynnum sínum, sérstaklega ef um er að ræða ágengar framandi lífverur. Auk þess sem framandi lífverur geta haft áhrif á líffræðilega fjölbreytni geta sumar þeirra valdið verulegu tjóni, umhverfislega, efnahagslega og heilsufarslega.
Í skilningi náttúruverndarlaga geta framandi lífverur því ýmist talist framandi lífverur eða ágengar framandi lífverur. Hvort heldur sem um er að ræða framandi lífverur eða ágengar framandi lífverur er innflutningur þeirra óheimill nema með leyfi Náttúruverndarstofnunar, samanber 63. grein laga um náttúruvernd, en nánari upplýsingar um innflutning lifandi framandi lífvera má nálgast hér.
Komið hefur verið á fót samstarfsverkefni þjóða í Norður-Evrópu (NOBANIS) sem hefur það að markmiði að draga úr eða koma í veg fyrir tjón af völdum ágengra tegunda. Verkefnið tekur til lífvera í sjó, fersku vatni og á landi og miðar að því að þróa og búa til net gagnagrunna með upplýsingum um framandi tegunda og gera þær aðgengilegar á netinu. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur tekið þátt í verkefninu fyrir Íslands hönd. Nánari upplýsingar eru aðgengilegar á vefsíðu NOBANIS og vefsíðu Náttúrufræðistofnunar.
Um innflutningsleyfi á framandi lífverum
Óheimilt er að flytja inn og dreifa lifandi framandi lífverum nema með leyfi Náttúruverndarstofnunar. Þetta gildir þó ekki um búfé eða framandi plöntutegundir sem hafa verið notaðar til garðyrkju, túnræktar, jarðræktar, landgræðslu og skógræktar nema innflutningur sé bannaður samkvæmt reglugerð.
