Fræðiheiti: Fratercula arctica
Nytjar: Matbráð
Eggjataka: Hefð fyrir eggjatöku háð hlunnindarétti
Válisti Náttúrufræðistofnunar: CR - Í bráðri hættu
Heimsválisti: VU - Vulnerable
Lundi (Fratercula arctica) er af svartfuglaætt (Alcidae) og ættkvísl lunda (Fratercula). Hann er algengasti fugl landsins þó stofninn hafi dregist saman um meira en 50% frá árinu 1995 samkvæmt stofnvöktun Náttúrufræðistofnunar Suðurlands árið 2024.
Lundi er farfugl sem hefur vetrarstöðvar úti á rúmsjó og kemur að landi í lok apríl eða byrjun maí til þess að verpa. Hann verpir í holur við strandlínu landsins, í eyjum og hólmum og fer svo aftur út á sjó í lok sumars þegar pysjan (ungi lundans) er orðin sjálfbjarga. Lundinn er auðþekkjanlegur á sumrin af skrautlegum gogg sínum, svörtu bakinu og hvítri bringunni.
Lundaveiðar hafa verið hluti af íslenskri menningu í aldaraðir. Lundi er aðallega veiddur með háfi en lítill hluti af veiðiafla hvers árs er skotinn. Ekki er sölubann á lunda og má finna lundakjöt á ýmsum veitingastöðum landsins.
Óhagstæðar umhverfisaðstæður vega þyngst í fækkun lundastofnsins en hlýskeið í Atlantshafi hefur valdið minna framboði af helstu fæðu hans. Veiðar hafa þó einnig stuðlað að ósjálfbærni stofnsins.
Vöktun lunda
Náttúrustofa Suðurlands vaktar lundastofninn á Íslandi og skilar árlega skýrslu um stöðu stofnsins, ásamt fleiri upplýsingum. Hér að neðan má nálgast vöktunarskýrslur um lundastofninn en einnig er bent á vefsíðu Náttúrustofu Suðurlands, þar sem ýmsar upplýsingar um lunda er að finna.
Stofnmat erlendra sérfræðinga
Árið 2024 voru tveir erlendir sérfræðingar fengnir til þess að framkvæma stofnmat á lundastofninum. Þeir skiluðu skýrslu með þeim niðurstöðum að langtíma fækkun í lundastofninum sé aðallega vegna óhagstæðra umhverfisáhrifa, en að mild ofveiði hafi líklega átt sér stað frá nítjándu öld.
Enn fremur nefna þeir að áframhaldandi veiðar líkt og undanfarin ár séu líklegar til að valda frekari fækkun í stofninum nema umhverfisskilyrði batni til muna.
Stjórnunar- og verndaráætlun
Vinna við gerð stjórnunar- og verndaráætlun lunda fór af stað árið 2023 með vinnustofu. Markmið vinnustofunnar var að móta sameiginlega sýn á verkefnið og tilgreina helstu þætti stefnumótandi stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir stofninn ásamt því að greina helstu hagsmunaaðila. Niðurstöður vinnustofunnar má lesa í tenglinum hér að neðan.
