Fræðiheiti: Uria aalge
Veiðitímabil: 1. september – 25. apríl
Háfaveiðar: 1. júlí – 15. ágúst
Nytjar: Matbráð
Eggjataka: Hefð fyrir eggjatöku háð hlunnindarétti
Válisti Náttúrufræðistofnunar: NT – Í yfirvofandi hættu
Heimsválisti: LC – Ekki í hættu
Langvía finnst víða um landið. Henni fækkaði talsvert, um 29%, á 20 ára tímabili á milli stofnmata 1985 og 2008 en hefur fjölgað í flestum byggðum síðan þá, eða um 15% í heild ef talningar úr byggðum sem eru vaktaðar eru yfirfærðar á allt landið. Í heild hefur stofninn því minnkað um 19% frá um 1985. Hægt er að nálgast tengla á vöktunarskýrslur hér neðar á síðunni.
Langvía hefur hvíta bringu en svart höfuð og bak með brúnum blæ. Til eru tvö litaafbrigði af henni þar sem annað þeirra er með hvítan hring í kringum augun og línu út frá honum en hitt ekki. Goggurinn er langur og mjór. Erfitt getur verið að greina á milli stuttnefju og langvíu, þar sem þær eru afar líkar og verpa báðar í björgum.

Veiði á langvíu
Langvíuveiðar hafa dregist talsvert saman á síðustu 20 árum. Um aldamótin voru veiddar um og yfir 60 þúsund langvíur árlega en í dag er talan komin um og undir 10 þúsund.
Heimilt er að stunda skotveiði á langvíu. Samkvæmt reglugerð númer 765/2017 er heimilt að veiða langvíu frá 1. september til 25. apríl.
Á takmörkuðum svæðum, þar sem eggja- eða ungataka langvíu taldist til hefðbundinna hlunninda þann 1. júlí 1994 og veiðirétthafi er handhafi hlunnindaveiðikorts, má veiðirétthafi háfa langvíu og nýta egg hennar. Samkvæmt reglugerð númer 456/1994 er veiðirétthafa heimilt að háfa langvíu frá 1. júlí til 15. ágúst.
Hér má skoða veiðitölur langvíu og annarra tegunda frá árinu 1998.
Vöktun langvíu
Náttúrustofa Norðausturlands sér um vöktun langvíustofnsins og stofna annarra bjargfugla. Þau skila árlega inn skýrslu um stöðu stofnsins ásamt fleiri upplýsingum. Hér að neðan má finna skýrslur þeirra.
