Fræðiheiti: Alca torda
Veiðitímabil: 1. september – 25. apríl
Háfaveiðar: 1. júlí – 15. ágúst
Nytjar: Matbráð
Eggjataka: Hefð fyrir eggjatöku háð hlunnindarétti
Válisti Náttúrufræðistofnunar: LC – Ekki í hættu
Heimsválisti: LC – Ekki í hættu
Álka er ein af svartfuglategundum landsins og einkennist – líkt og þær flestar – af hvítri bringu og svörtu höfði og baki. Álkan er með einkennandi svartan gogg með lóðréttri hvítri línu um hann miðjan og annarri láréttri sem teygir sig frá gogginum í átt til augnanna.
Álku fækkaði þónokkuð á rúmlega 20 ára tímabili frá um 1985 til um 2008 ásamt því að varpdreifing breyttist mikið. Frá þessum tíma hefur stofninn stækkað í öllum björgum sem hann er talinn í, en þó þarf að setja þann fyrirvara að sú talning nær ekki til varpsvæða álkna í urðum.

Veiði á álku
Álkuveiðar hafa dregist talsvert saman á síðustu 20 árum. Rétt fyrir aldamót voru veiddar um og yfir 25 þúsund álkur árlega en í dag er talan komin undir 5 þúsund.
Heimilt er að stunda skotveiði á álku. Samkvæmt reglugerð númer 765/2017 er heimilt að veiða álku frá 1. september til 25. apríl.
Á takmörkuðum svæðum, þar sem eggja- eða ungataka álku taldist til hefðbundinna hlunninda þann 1. júlí 1994 og veiðirétthafi er handhafi hlunnindaveiðikorts, má veiðirétthafi háfa álku og nýta egg hennar. Samkvæmt reglugerð númer 456/1994 er veiðirétthafa heimilt að háfa álku frá 1. júlí til 15. ágúst.
Hér má skoða veiðitölur álku og annarra tegunda frá árinu 1998.
Vöktun álku
Náttúrustofa Norðausturlands sér um vöktun álkustofnsins og stofna annarra bjargfugla. Þau skila árlega inn skýrslu um stöðu stofnsins ásamt fleiri upplýsingum. Hér að neðan má finna skýrslur þeirra.
