Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Valmynd

Samstarf um sjálfboðaliðastörf

Græna helgin er samstarfsverkefni við framhaldsskóla sem hefur verið í gangi síðan árið 2011. Nemendur frá tveimur framhaldsskólum, Menntaskólanum við Hamrahlíð og Fjölbrautarskólanum við Ármúla, hafa tekið þátt í verkefninu sem fer fram árlega síðla sumars.

Græn helgi sjálfboðaliðar

Unnið er á náttúruverndarsvæðum á Suðvesturlandi og um 20-30 nemendur ásamt kennurunum taka þátt. Sjálfboðaliðar á vegum Náttúruverndarstofnunar vinna líka með í hópnum.

Á undanförnum árum hefur verið unnið við viðhald stikaðra gönguleiða, villustígum lokað og för vegna utanvegaaksturs sexhjóla og bifhjóla afmáð. Á meðan á verkefninu stendur eru nemendur fræddir um hvernig ástandsmat er gert á göngustígum og hvernig viðhaldi þeirra er háttað. Að vinnunni lokinni er farið í fræðsluferð og nærliggjandi náttúrufyrirbæri skoðuð með áherslu á að sýna hversu falleg og viðkvæm náttúra Íslands getur verið.

Viðburðirnir snúast ekki einungis um framkvæmdir því heslti ávinningur þeirra er sú fræðsla og vitundarvakning sem nemendurnir hljóta með því að gerast sjálfboðaliðar í náttúruvernd. Náttúruverndarstofnun leggur áherslu á fræðslu bæði á verklagi og hugmyndafræði um göngustígagerð, ásamt sérstöðu einstakra náttúruverndar- og útivistarsvæða.

Græna helgin er því lærdómsrík og er það von Náttúruverndarstofnunar að frekara samstarf við framhaldsskóla höfuðborgarsvæðisins muni leiða af sér vitundarvakningu um þær fjölmörgu náttúruperlur sem leynast bæði innan og í nágrenni við höfuðborgarsvæðið. Með slíkri vitundarvakningu og auknum krafti í þátttöku heimafólks í sjálfboðaliðastarfi er hægt að hlúa enn betur að friðlýstum svæðum og útivistarperlum á Suðvesturlandi.