Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Valmynd

Ferill friðlýsinga

Friðlýsingar þurfa að fara fram á skipulegan og gagnsæjan hátt svo allir hagsmunaaðilar séu með í ferlinu frá upphafi. Þannig skapast traust, betri samvinna og vandaðri ákvarðanir sem nýtast náttúrunni og samfélaginu. En hvernig fer friðlýsingarferlið fram?

Fyrsta skrefið í undirbúningi friðlýsingar er að Náttúruverndarstofnun óskar eftir tilnefningu fulltrúa landeigenda, sveitarfélags og annarra aðila, í samstarfshóp. Hlutverk samstarfshópsins er að vinna hagsmunaaðilagreiningu og tillögu að reglum svæðisins eða svo kallaða friðlýsingaskilmála, og ákveða afmörkun friðlýsta svæðisins. 

Ef svæðið er ekki á náttúruverndaráætlun, rammaáætlun eða á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár þarf að auglýsa áform um friðlýsingu svæðisins í fjórar vikur. Þar þarf að tilgreina markmið og tilgang fyrirhugaðrar friðlýsingar. Áformin eru send sérstaklega til þeirra aðila sem eiga hagsmuna að gæta á svæðinu samkvæmt hagsmunaðilagreiningu samstarfshópsins. Að kynningartíma liðnum tekur Náttúruverndarstofnun saman umsögn um innkomnar athugasemdir og skilar til ráðherra umhverfismála. Náttúruverndarstofnun gerir þeim sem gerðu athugasemdir við tillöguna, grein fyrir umsögn sinni um þær. Ef svæðið er á náttúruverndaráætlun, rammaáætlun eða á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár, er ekki þörf á þessu kynningarferli nema fyrirhugað sé að friðlýsa stærra svæði en áður var ákveðið í þessum áætlunum.

Við vinnu við tillögu að friðlýsingaskilmálum fer fram samráð við þá aðila sem eiga sérstakra hagsmuna að gæta á svæðinu. Þeir eru til dæmis landeigendur, ferðaþjónustuaðilar og aðrir hagsmunaaðilar.

Þegar samstarfshópurinn hefur unnið tillögu að friðlýsingaskilmálum og tillögu að afmörkun svæðisins er tillagan auglýst í að lágmarki sex vikur. Náttúruverndarstofnun kynnir drögin fyrir landeigendm, viðkomandi sveitarfélögum og öðrum sem eiga hagsmuni af friðlýsingunni. Stofnunin kynnir líka fyrir landeigendum rétt til bóta samkvæmt náttúruverndarlögum. Að kynningartíma loknum vinnur samstarfshópurinn úr innkomnum athugasemdum. Í kjölfarið vísar Náttúruverndarstofnun málinu til ráðherra til staðfestingar ásamt því að gera ráðherra grein fyrir hvort náðst hafi samkomulag um friðlýsinguna við hlutaðeigandi aðila.

Samstarfshópur er skipaður fulltrúum frá Náttúruverndarstofnun, sveitarfélögum, landeigendum og öðrum hagsmunaaðilum. Hlutverk hópsins er að vinna að undirbúningi friðlýsingar og vinna að afmörkun og friðlýsingarskilmálum.