Náttúruverndarsvæði eru friðlýst af mismunandi ástæðum. Reglur, til dæmis um veiðar og umferð, eru breytilegar milli einstakra svæða og því mikilvægt að gestir afli sér nauðsynlegra upplýsinga um friðlýsingarreglur og fari eftir tilmælum landvarða.
Sumir gestir friðlýstra svæða leita í náttúruna til að finna frið og ró meðan aðrir sækja þangað ævintýri og spennu. Með auknum fjölda ferðamanna eru líkur á að leiðir þessara hópa skarist. Það er því mikilvægt að sýna öðrum gestum tillitssemi á ferðum okkar svo að komist verði hjá árekstrum.
Umgengni
Sérstök ástæða er til að forðast gáleysislega umgengni um náttúru Íslands. Gróðursvæði eru víða viðkvæm og íslenskur jarðvegur er grófur, laus í sér og auðrofinn. Sár eru lengi að gróa vegna stutts vaxtartíma gróðurs auk þess sem vatn og vindar geta aukið á rof í sárum.
Með því að leggjast á eitt getum við verndað náttúru og ásýnd landsins og stuðlað að því að fólk fái notið fegurðar landsins til framtíðar. Göngum frá áningarstað eins og við viljum koma að honum. Tökum rusl með til byggða. Virðum eignarrétt og göngum vel um girðingar og hlið. Reynum að trufla ekki dýralíf með óþarfa ágangi. Sýnum tillitssemi og höfum hundinn í bandi. Höfum hugfast að skemmdir á jarðmyndunum verða ekki bættar.
Akstur
Ökum ekki utan vega. Ökutæki getur markað sár í landið sem erfitt er að afmá. Akstur utan vega er bannaður með lögum en leyfilegt er að aka utan vega þegar jörð er snævi þakin og frosin.
Gönguferðir
Það er heimilt að fara gangandi um óræktað land. Styttum okkur ekki leið yfir afgirt land, tún eða einkalóðir og virðum reglur um umferð á svæðum þar sem verið er að vernda dýralíf og gróður. Fylgjum merktum göngustígum. Stígarnir eru gerðir til þess að auka öryggi fólks, vísa því rétta leið og draga úr álagi á viðkvæma náttúru.
Landeigendur þurfa að tryggja að ferðafólk komist meðfram vatnsbökkum, ströndum og eftir þjóðleiðum og skipulögðum stígum. Við farartálma eiga að vera prílur eða hlið. Vatnalög fjalla um umferð um vötn. Vatnsbakkar og hólmar eru oft mikilvæg búsvæði dýra og því þarf að ganga þar um af gætni.
Hjólreiðar
Hjólandi fólk þarf að fylgja vegum og reiðhjólastígum þar sem það er hægt. Sumir göngustígar eru ekki til þess gerðir að hjólað sé á þeim og þar er umferð reiðhjóla takmörkuð. Gætum þess að fara ekki illa með gróður og eyðileggja ekki yfirborð stíga þar sem farið er um.
Útreiðar
Hestamönnum þurfa að fylgja reiðstígum. Hugum að jarðvegi og gróðri á ferð utan reiðstíga. Í hálendisferðum er nauðsynlegt að hafa fóður meðferðis og staðsetja næturhólf á ógrónu landi. Sérstaka gát þarf að sýna við stóðrekstur.
Veiðar
Ráðstöfun veiðileyfa og nýtingarréttur eru í höndum veiðirétthafa sem venjulega eru landeigendur, veiðifélög eða upprekstrarfélög. Þetta á við um ár, vötn og við strendur. Rétt er að spyrjast fyrir um veiðirétt.
Handhöfum veiðikorts er heimilt að veiða fugla utan eignarlanda. Rétthöfum er heimilt að ráðstafa veiðirétti innan sinna landareigna. Leyfi til veiða á ákveðnum tegundum eru bundin árstíma.
Tjaldstaðir
Það er heimilt að tjalda til einnar nætur á óræktuðu landi. Landeigendur þurfa að gefa til kynna undantekningar á þeirri reglu með merkingum. Af tillitssemi við landið og eigendur þess ættu menn þó að nýta sér merkt tjaldsvæði verði því við komið og ekki tjalda nærri bæjum án leyfis. Hópar þurfa undantekningarlaust að ráðfæra sig við landeigendur ef þeir hyggjast slá upp tjaldbúð utan merktra tjaldsvæða.
Berjatínsla
Það má tína ber, sveppi, fjörugróður og aðrar jurtir en ef tínt er í miklum mæli innan eignarlanda þarf að fá leyfi. Það má líka tína ber og jurtir á þjóðlendum og afréttum. Athugið að nokkrar jurtir sem vaxa í íslenskri náttúru eru fágætar og friðaðar og óleyfilegt er að skerða þær.
Hugtök
- Eignarland: Landsvæði sem háð er einkaeignarrétti.
- Afréttur: Lönd ofan byggða þar sem alla jafna er sumarbeit dýra.
- Almenningur: Landsvæði í eigu almennings og ekki er sýnt fram á einkaeignarréttindi.
- Þjóðlenda: Landsvæði utan eignarlanda, hugsanlega takmörkuð eignarréttindi.
- Náttúruverndarsvæði: Friðlýst svæði, svæði á náttúruminjaskrá og önnur afmörkuð svæði sem njóta verndar samkvæmt lögum.
