Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Valmynd

Helsingi

Helsingi er auðþekkjanlegur af svörtum hálsi sínum og hvítu andliti og bringu. Hann er nokkuð vinsæl veiðibráð.

Helsingjar og ungar við vatn

Fræðiheiti: (Branta leucopsis
Veiðitímabil: 1. september – 15. september
Nytjar: Matbráð 
Eggjataka: Ekki hefð fyrir eggjatöku 
Válisti Náttúrufræðistofnunar: LC – Ekki í hættu
Heimsválisti: LC – Ekki í hættu

Helsingi er af andaætt (Anatidae) og ættkvísl svartgæsa (Branta). Hann er auðþekkjanlegur á svörtum hálsi sínum og hvítu andliti og bringu, en afar skörp skil eru á milli þessara lita á honum. Hann er grasbítur og sækir í ber og rætur á haustin. 

Helsingi er hópfugl en ólíkt öðrum gæsum flýgur hann sjaldan í oddaflugi, heldur frekar í þéttum og óskipulögðum hópum eða löngum röðum. Hann er aðallega farfugl en í Austur- og Vestur-Skaftafellssýslum hefur varpstofninn verið að stækka á síðustu áratugum. Vetrarstöðvar hans eru á Bretlandi og aðalvarpstöðvar hans í Grænlandi, en íslenski stofninn tilheyrir svokölluðum Austur-Grænlandsstofni. 

Helsingjastofninn var í vexti frá aldamótum en í rénun frá árinu 2017. Árið 2024 var stofninn kominn nálægt neðri viðmiðunarmörkum samkvæmt alþjóðlegum samningum og því hefur veiðitímabilið verið stytt.

Meira um helsingja á vef Náttúrufræðistofnunar. ATH að veiðitímabilið á vef þeirra er úrelt. 

Helsingjar á túni
Mynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Veiði á helsingja

Helsingi er nokkuð vinsæl veiðibráð á Íslandi. Árið 2025 er heimilt að veiða helsingja frá 1. september til 15. september um land allt. Sölubann er á helsingja og afurðum hans.

Áður fyrr hófst veiðitímabilið síðar í Austur- og Vestur-Skaftafellssýslum en var það fært fram til þess að beina veiðunum frekar að þeim hluta stofnsins sem verpir hér á landi, bæði til þess að verja tún fyrir ágangi þeirra og til þess að verja þann hluta sem verpir á Grænlandi og á undir högg að sækja.

Um 3 þúsund helsingjar eru veiddir árlega. Hér má skoða veiðitölur helsingja og annarra tegunda frá árinu 1998.

Stöðuskýrsla 2025

Veiðitímabil helsingja hefur breyst síðustu ár og verið stytt vegna þess hve nálægt neðri stofnstærðarviðmiðum (settum af AEWA, sjá meira um það hér að neðan) hann er. Náttúruverndarstofnun tók saman stöðuskýrslu um stofninn sem er aðgengileg hér.

Helsingjar á flugi
Mynd: Jóhann Óli Hilmarsson

AEWA samstarfið

Helsingi fellur undir alþjóðlegan samning um verndun afrísk-evrasískra sjó- og vatnafugla (AEWA) sem Ísland hefur verið aðili að síðan 2013. Hann nær til fjölmargra fuglategunda sem verpa eða hafa viðkomu á Íslandi.

Með samningnum hefur sýnilegum alþjóðlegum árangri verið náð í að tryggja vernd tegunda sem hafa verið í niðursveiflu og jafnvel útrýmingarhættu, til dæmis vegna óheftra veiða eða eyðileggingar á mikilvægum varp- og áningarstöðum tegundanna. Virk þátttaka Íslands í AEWA hefur því skýran ávinning fyrir náttúruvernd hér á landi.

Árið 2016 var stofnaður samstarfsvettvangur innan AEWA um stýringu á stærð gæsastofna (European goose management plan, EGMP). EGMP, undir AEWA, hefur gefið út stjórnunaráætlun fyrir alla þrjá stofna helsingja. Íslenski stofninn fellur undir þann Austur-Grænlenska sem ferðast á milli Grænlands og Bretlandseyja með viðkomu á Íslandi. Í áætluninni kemur meðan annars fram að neðri mörk stofnstærðar Austur-Grænlenska stofnsins eru 54 þúsund fuglar að vori, en árið 2025 telur stofninn um 62 þúsund fugla. Stjórnunaráætlunina má nálgast í hlekknum hér að neðan. 

Vöktun helsingja

Heildarstofn helsingja er metinn í alþjóðlegu samstarfi við þær þjóðir sem Austur-Grænlenski helsingjastofninn dvelur hjá hluta ársins. Talningar á íslenska varpstofninum eru einnig gerðar

Heildarstofnstærð er metin á þriggja ára fresti á vetrarstöðvum. Með talningum á Íslandi að vorlagi sömu ár má meta hlutdeild íslenska varpstofnsins af heildarstofni, en afgangurinn er þá af grænlenskum uppruna.