Fræðiheiti: (Anser brachyrhynchus)
Veiðitímabil: 20. ágúst – 15. mars
Nytjar: Matbráð
Eggjataka: Hefð fyrir eggjatöku háð hlunnindarétti
Válisti Náttúrufræðistofnunar: LC - Ekki í hættu
Heimsválisti: LC - Least Concern
Heiðagæs (Anser brachyrhynchus) er af andaætt (Anatidae) og ættkvísl grárra gæsa (Anser). Hún er áþekk grágæs í útliti en er nokkru minni, með styttri háls og þekkist vel af höfði og hálsi sem eru kaffibrún að lit. Heiðagæs er grasbítur líkt og aðrar gæsir og sækir nokkuð í tún og ræktarlönd á vorin þó aðallega éti hún mýrargróður á þeim tíma og ber og rætur þegar líða fer á sumarið.
Heiðagæsastofn landsins er stór og heilbrigður og dvelur að mestu á miðhálendinu þar sem aðalvarpstöðvar hans eru. Oft er sagt að heiðagæs og grágæs skipti með sér landinu þar sem heiðagæs verpir á hálendi og grágæs á láglendi, þó einhverjar heiðagæsir séu farnar að færa sig niður á láglendið.
Vetrarstöðvar heiðagæsar eru í Skotlandi og Norður-Englandi og samgangur er einnig á milli Íslands og Grænlands, þar sem íslenskir geldfuglar fara til Grænlands á sumrin til að fella flugfjaðrir og grænlenski varpfuglar stoppa við á Íslandi að vori og hausti.
Nytjar af heiðagæs eru fuglinn sjálfur, egg og dúnn.

Veiðireglur
Heiðagæs er vinsæl veiðibráð á Íslandi. Heimilt er að veiða heiðagæs frá 20. ágúst til 15. mars. Ekkert sölubann er á heiðagæs líkt og er á grágæs.
Veiðirétthafar á hlunnindajörðum mega taka heiðagæsaregg en skulu skilja að minnsta kosti tvö egg eftir í hreiðri.
Hér má skoða veiðitölur heiðagæsar og annarra tegunda frá árinu 1998.

AEWA samstarfið
Heiðagæs fellur undir alþjóðlegan samning um verndun afrísk-evrasískra sjó- og vatnafugla (AEWA) sem Ísland hefur verið aðili að síðan 2013. Hann nær til fjölmargra fuglategunda sem verpa eða hafa viðkomu á Íslandi.
Með samningnum hefur sýnilegum alþjóðlegum árangri verið náð í að tryggja vernd tegunda sem hafa verið í niðursveiflu og jafnvel útrýmingarhættu, til dæmis vegna óheftra veiða eða eyðileggingar á mikilvægum varp- og áningarstöðum tegundanna. Virk þátttaka Íslands í AEWA hefur því skýran ávinning fyrir náttúruvernd hér á landi.
Árið 2016 var stofnaður samstarfsvettvangur innan AEWA um stýringu á stærð gæsastofna (European goose management plan, EGMP). Hægt er að fræðast meira um heiðagæsavinnu EGMP í hlekknum hér að neðan.
