Aðgengi og upplýsingar
Landslagsverndarsvæðið norðan Dyrfjalla nær frá Héraðssandi upp í fjalllendið ofan Héraðsflóa. Þar eru fjörusandar, gróskumiklar heiðar og mikilúðlegir fjallatindar.
Friðlýsing
Svæðið norðan Dyrfjalla var friðlýst sem landslagsverndarsvæði þann 2. júlí 2021 ásamt því sem Stórurð var friðlýst sem náttúruvætti. Svæðaskipting kemur fram á korti en mismunandi reglur gilda innan þeirra. Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir svæðið kom út árið 2025.
Markmið friðlýsingarinnar er að vernda og varðveita sérstæðar jarðminjar og landslag sem er einstakt á landsvísu vegna fagurfræðilegs gildis. Þá er jafnframt markmið friðlýsingarinnar að standa vörð um líffræðilega fjölbreytni með verndun vistkerfa, þar með talið mikilvægt fuglasvæði norðan Selfljóts, og stýringu umferðar um svæðið. Friðlýsingin skal stuðla að því að nýting svæðisins fari fram með þeim hætti að ekki sé gengið á gæði landsins.
Samkvæmt skilgreiningu Alþjóða náttúruverndarsamtakanna IUCN fellur landslagsverndarsvæðið í flokk V.
