Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Valmynd

Ströndin við Stapa og Hellna

 Hér hafa sérkennilegar klettamyndanir mótast af briminu.

Aðgengi og upplýsingar

Náttúruverndarstofnun hefur umsjón með friðlöndunum og skipuleggur þar landvörslu. Ferðafólk er velkomið og hvatt til að skoða sig um. Akstur utan vega skilur oft eftir opin sár og getur myndað slóða á svæðum sem ekki á að aka um. Því er akstur utan vega óheimill. Sérstök aðgát skal höfð í nánd við varplönd fugla. Verði þeir truflaðir og yfirgefi hreiðrin of lengi getur varp misfarist. Skerðið ekki gróður, truflið ekki dýralíf og skemmið ekki jarðmyndanir. Farið með rusl að næsta ruslagámi, þannig helst ströndin hrein.

Mikilvægt er að við virðum öll þessar reglur og förum eftir þeim. Við eigum landið saman og skulum ganga þannig um að komandi kynslóðir geti einnig notið þess til fulls. Berum virðingu fyrir náttúrunni og öllum þeim fjölbreytileika lífs og landslags sem í henni er.

Á Arnarstapa og Hellnum er hægt að fá innigistingu á nokkrum stöðum. Á Arnarstapa er einnig tjaldstæði en bannað er að tjalda í friðlandinu sjálfu. Ýmis afþreying og þjónusta stendur ferðamönnum til boða. Landvörslu er sinnt af landvörðum sem einnig eru við landvörslu í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli. 

Tilgangur friðlýsingar er að vernda náttúru landsins á þann hátt að fólki gefist kostur á að njóta hennar. Með friðlöndunum er tekið frá land fyrir eðlilega framvindu náttúrunnar, útivist og upplifun manna á náttúrunni. Aukin meðvitund almennings og virk þátttaka í náttúruvernd er grundvallaratriði til að ná fram þessum markmiðum.

Friðlýsing

Ströndin við Stapa og Hellna var friðlýst árið 1979. Margar fagrar og sérkennilegar bergmyndanir er að finna við sjó á þessum slóðum.  Þar hafa sérkennilegar klettamyndanir mótast af briminu. Hellnahraun er komið upp úr gíg nærri Jökulhálsi sem nú er hulinn jökli. Á svæðinu er t.a.m. að finna sérkennilegar gjár sem ágangur sjávar hefur grópað í bergið. Fuglalíf er ríkulegt á þessum slóðum. Ströndin var fyrrum mikil verstöð enda gott lægi fyrir báta. Talið er að hraunið sé 3900 ára.