Aðgengi og upplýsingar
Skútustaðagígar eru við Skútustaði við suðurströnd Mývatns á norðausturlandi. Hægt er að keyra að svæðinu eftir þjóðvegi 848 Mývatnsvegi. Bílastæði er við gestastofuna Gíg en þar er upplýsingagjöf, sýning og salernisaðstaða.
Landverðir í Mývatnssveit hafa umsjón með svæðinu.

Gervigígar
Gervigígar eru jarðmyndanir sem eru fágætar á landsvísu sem og á heimsvísu. Gervigígar verða til þegar þunnfljótandi hraun flæðir yfir votlendi. Vatn sem lokast undir hrauninu sýður og þenst út þar til það á endanum sprengir hraunfargið í gríðarlegum gufusprengingum. Yfirborð þeirra er því úr þykku gosgjalli. Það er ekkert gervilegt við gervigíga en orðið vísar til þess að þeir urðu ekki til á sama hátt og venjulegir eldgígar. Sigurður Þórarinsson, jarðfræðingur, varð fyrstur til að skilja og skýra myndun þeirra.
Friðlýsing
Skútustaðagígar voru friðlýstir árið 1973. Friðlýsta svæðið er tæpir 70 hektarar að stærð. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda útlit gíganna og gera þá aðgengilega sem og að standa vörð um nýtingarrétt landeigenda. Gervigígar eru viðkvæmir fyrir ágangi og þarf hvarvetna að gera sérstakar ráðstafanir til að varðveita þá þar sem einhver umferð er.
