Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Valmynd

Mývatn og Laxá

Mývatn og Laxá er ein af helstu náttúruperlum norðurlands. Í Mývatnssveit er fjölbreytni í náttúrufari mikil og landslag sérstætt, enda mótað af miklum eldsumbrotum. Þangað hafa ferðamenn, bæði innlendir og erlendir, sótt sér innblástur, notið náttúrufegurðar og hrifist af lífríki svæðisins.  

Aðgengi og upplýsingar

Friðlýsing

Mývatn og Laxá eru upphaflega friðlýst með lögum um verndun Mývatns og Laxar í Suður-Þingeyjarsýslu árið 1974.  Mývatn og Laxá eru nú vernduð samkvæmt sérstökum lögum nr. 97 frá 9. júní 2004. Markmið laganna er að stuðla að náttúruvernd í samræmi við sjálfbæra þróun og tryggja að vistfræðilegu þoli svæðisins verði ekki stefnt í hættu af mannavöldum.

Lögin eiga að tryggja vernd líffræðilegrar fjölbreytni á víðáttumiklu vatnasviði Mývatns og Laxár ásamt verndun jarðmyndana og landslags með virkri náttúruvernd, einkum með tilliti til vísindalegra, félagslegra og fagurfræðilegra sjónarmiða.

Ákvæði laganna taka til Mývatns og Laxár með eyjum, hólmum og kvíslum, allt að ósi árinnar við Skjálfandaflóa, ásamt 200 m breiðum bakka meðfram Mývatni öllu og Laxá báðum megin. Auk þess ná lög þessi til eftirtalinna votlendissvæða, ásamt 200 m bakka meðfram vötnum, ám og lækjum: Sortulækjar, Geirastaðahrauns, Sandvatns ytra, Belgjarskógar, Slýja, Neslandatanga, Framengja, Krákár frá Strengjabrekku að Laxá, Grænavatns, Helluvaðsár og Arnarvatns, ásamt votlendi sem því tilheyrir. Þá taka lögin enn fremur til vatnsverndar á vatnasviði Mývatns og Laxár.

Mývatn og Laxá eru á skrá um alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði samkvæmt Ramsarsáttmálanum.