Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Valmynd

Laugarás, Reykjavík

Jarðminjar svæðisins veita mikilvæga sýn í jarðsögu Reykjavíkur og upplýsingar um loftslags- og landháttabreytingar.

Á svæðinu eru jarðminjar í formi jökulsrispaðs bergs og einnig má sjá ummerki um sjávarstöðu við lok ísaldar.

Náttúruvættið Laugarás er staðsett efst áLaugarásholti í Langholtshverfi í Reykjavík. Svæðið liggur að Vesturbrún í vestri og að mótum Austurbrúnar, Dyngjuvegar og Vesturbrúnar í suðri. Í norðri og austri liggur svæðið að íbúðalóðum við Austurbrún og Vesturbrún og er því staðsett í miðri íbúabyggð. Svæðið umlykur hæstapunkt Laugaráshæðar sem er nær 50 m.y.s. og eru jarðminjarnar í og við þann punkt.

Bílastæði er við jaðar svæðisins að sunnanverðu í Vesturbrún. Ekki er aðstaða til að geyma hjól á svæðinu. Göngustígur liggur frá bílastæðinu upp að hæsta punkti svæðisins. Við göngustíginn er fræðsluskilti. Töluvert margir aðrir stígar, misgreinilegir, hafa myndast á svæðinu, en um er að ræða troðninga en ekki eiginlega stíga. Flestir stígarnir liggja að hæsta punkti svæðisins, en þar er að finna steypustöpul sem skilgreinir mælingapunkt frá Landmælingum Íslands.

Frá hæsta punkti svæðisins er útsýni gott til allra átta, yfir borgarlandið, sundin og til fjalla.

Fræðsla

Friðlýsing

Laugarás var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1982. Náttúruvætti eru náttúrumyndanir sem mikilvægt er að varðveita sakir fræðilegs gildis, fegurðar eða sérkenna. Markmiðið með friðlýsingu Laugaráss er verndun fágætra jarðminja svæðisins og vilji til að halda opnu svæði þar sem unnt væri að skoða þær merku jarðminjar sem eru á svæðinu.