Aðgengi og upplýsingar
Þjóðvegur nr. 32 liggur að friðlýsta svæðinu að sunnan- og norðanverðu. Stangarvegur nr. 327 liggur að Stöng og Gjánni og Hjálparvegur nr. 3361 að Hjálparfossi. Vegur nr. 332 liggur að Háafossi. Bílastæði eru við Hjálparfoss, Stöng og Háafoss.
Svæðið er friðlýst sem landslagsverndarsvæði en innan þess eru náttúruvættin Hjálparfoss, Gjáin og Háifoss og Granni.
Friðlýsing
Hluti Þjórsárdals var friðlýstur sem landslagsverndarsvæði árið 2020. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda sérstæðar jarðmyndanir og landslag sem er sérstætt á landsvísu vegna fagurfræðilegs og menningarlegs gildis. Einnig er markmiðið að stuðla að vernd líffræðilegrar fjölbreytni með verndun vistkerfa og að stuðla að endurheimt raskaðra vistkerfa með áframhaldandi vinnu við uppgræðslu og endurheimt birkiskóga. Friðlýsta svæðið í Þjórsárdal flokkast undir landslagsverndarsvæði og er 58 km2 að stærð. Innan þess eru þrjú náttúruvætti, Hjálparfoss, Gjáin, Háifoss og Granni. Náttúruvættin eru friðlýst vegna jarðfræðilegrar og líffræðilegrar fjölbreytni.
