Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Valmynd

Kirkjugólf

Kirkjugólfið er jökul- og brimsorfið stuðlaberg þar sem endar lóðréttra stuðla ná upp úr jörðu og engu líkara en að flöturinn hafi verið lagður af manna höndum.

Aðgengi og upplýsingar

Kirkjugólf er staðsett í túni í austurjaðri þorpsins Kirkjubæjarklausturs. Göngustígur er frá bílastæði á Geirlandsvegi að Kirkjugólfinu.

Landverðir í Skaftárstofu hafa umsjón með náttúruvættinu.

Fræðsla

Kirkjugólf er hluti af stuðluðu blágrýtislagi, þar sem efsti hluti lóðréttra stuðla stendur upp úr jörðinni. Stuðlaberg líkt og það sem finnst í Kirkjugólfi myndast í nýju hrauni. Eftir að hafa storknað heldur hraunið áfram að kólna og dregst það smátt og smátt saman. Við það klofnar það í stuðla, sem öllu jafna eru fimm- eða sexstrendir. Stuðlarnir eru ávallt hornréttir á kólnunarflöt, sem veldur því að þeir standa lóðréttir í hraunlögum líkt og í Kirkjugólfi. Eftir að stuðlarnir í Kirkjugólfi mynduðust hafa þeir mótast af bæði jökli og brimi. Áður fyrr var sandfok á svæðinu og er svörfun vegna þess áberandi á hluta stuðlabergsflatarinnar.

Friðlýsing

Kirkjugólfið var friðlýst sem náttúruvættið árið 1987. Mörk náttúruvættisins miðast við 10 m spildu út frá Kirkjugólfinu en jaðarsvæðið 50 m út frá Kirkjugólfi. Leiðarljós fyrir náttúruvættið er að varðveita stuðlabergið sem myndar Kirkjugólf og þá sérstöku ásýnd sem svæðið hefur. Jafnframt að tryggja gott aðgengi að svæðinu, svo að sem flestir fái þess notið, ásamt því að vernda og viðhalda nærsvæði þess.

Náttúruvættið Kirkjugólf flokkast í III flokk verndarsvæða skv. skilgreiningu Alþjóða náttúruverndarsamtakanna IUCN.