Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Valmynd

Ingólfshöfði

Ingólfshöfði er einn af elstu sögustöðum landsins, en þar hófu norrænir menn landnám. Í Ingólfshöfða er að finna fjölbreytt fuglalíf, þar verpur meðal annars lundi og fýll og er þéttleiki skúma áberandi.

Aðgengi og upplýsingar

Leiðin út í Ingólfshöfða er um það bil 9 km löng frá þjóðvegi og liggur um land Fagurhólsmýrar og Hofsness. Hún er ekki fær nema torfærubílum og dráttarvélum. Leiðin er stikuð en liggur um leirur og ála sem geta verið djúpir og er afar varasamt að fara út af henni. Ferðamenn eru hvattir til að aka ekki út í höfðann á eigin bílum, heldur nýta sér ferðir Öræfaferða.

Friðlýsing

Ingólfshöfði var friðlýstur árið 1978 sem friðland. Stærð friðlandsins er 120,2 hektarar. Markmiðið með friðlýsingu Ingólfshöfða er að varðveita og viðhalda náttúrulegu ástandi svæðisins og þá sérstaklega því fuglalífi sem finnst í höfðanum en sumar af þeim tegundum sem þar finnast eru í hættu samkvæmt útgefnum válistum. Þá er markmiðið einnig að vernda þær menningarminjar sem þar finnast og fjölbreytni landslags.

Samkvæmt Alþjóða náttúruverndarsamtökunum (IUCN) flokkast friðlandið í flokk IV.