Aðgengi og upplýsingar
Hrútey er klettaeyja í miðri Blöndu þar sem áin rennur í gegnum Blönduós og afmarkast fólkvangurinn af ánni. Bílvegur er ekki út í eyna en bílastæði eru á árbakkanum norðaustan við Blöndu og göngubrú yfir ána út í eyjuna. Meðfram Blöndu eru þjónustusvæði með bílastæðum, tjaldsvæði og sumarhúsum til útleigu. Göngustígur liggur frá þjónustusvæðinu meðfram Blöndu og til sjávar.
Umsjón og rekstur fólkvangsins Hrúteyjar er í höndum Húnabyggðar.
Svæðið er mikið notað af heimamönnum og ferðafólki til útivistar. Göngustígar liggja í gegnum svæðið og eru mikið notaðir.
Friðlýsing
Hrútey var friðlýst sem fólkvangur árið 1975. Stærð fólkvangsins er 10,7 hektarar. Markmiðið með friðlýsingunni er að tryggja gangandi fólki frjálsa ferð um eyna og jafnframt að vernda jarðmyndanir, gróður og dýralíf svæðisins.
