Aðgengi og upplýsingar
Hólmanes liggur á milli íbúabyggða í Eskifirði og í Reyðarfirði og er vinsælt útivistarsvæði. Norðfjarðarvegur, þjóðvegur nr. 92, liggur rétt utan við friðlýsta svæðið. Bílastæði er á Hólmahálsi með áningastað og útsýni yfir svæðið. Svæðið býður upp á fjölmargar gönguleiðir þar sem gestum gefst tækifæri til að skoða mismunandi náttúrufar og komast í mikið návígi við lífríki svæðisins
Landverðir á Austurlandi hafa eftirlit og umsjón með svæðinu.
Friðlýsing
Hólmanes var friðlýst árið 1973 sem bæði fólkvangur og friðland. Heildarflatarmál svæðisins er 318 hektarar.
Markmiðið með friðlýsingu friðlandshluta Hólmaness er að stuðla að sjálfbærri þróun þess lífríkis sem þar fyrirfinnst. Friðlandið Hólmanes flokkast í IV flokk verndarsvæða samkvæmt skilgreiningu Alþjóða náttúruverndarsamtakanna IUCN.
Markmiðið með friðlýsingu fólkvangshluta Hólmaness er að auðvelda almenningi aðgang að náttúru og tengdum menningarminjum í nánd við þéttbýli til útivistar, náttúruskoðunar og fræðslu. Fólkvangurinn Hólmanes flokkast í V flokk verndarsvæða samkvæmt skilgreiningum Alþjóða náttúruverndarsamtakanna IUCN.
