Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Valmynd

Gullfoss

Gullfoss í Hvítá er þekktur fyrir ógnarmátt sinn og fegurð. Fossinn lætur engan ósnortinn og laðar hann að sér gífurlegt magn gesta ár hvert. 

Aðgengi og upplýsingar

Gullfoss er staðsettur í uppsveitum Árnessýslu, við endan á Biskupstungnabraut (35) og við upphafið á Kjalvegi. Tvö bílastæði eru á svæðinu. Efra bílstæðið er fyrir almenna gesti en neðra er fyrir rútur og fyrir fatlaða. Frá efra bílastæðinu liggur gönguleið að útsýnispallinum ofan við fossinn. Einnig er göngustígur meðfram gljúfrinu að fossinum sjálfum. Við efra bílastæðið er Gullfosskaffi, veitingasala og minjagripaverslun.

Landvarsla er á svæðinu allan ársins hring.

Friðlýsing

Gullfoss ásamt gljúfrinu fyrir neðan fossinn og nærumhverfi hans vestan Hvítár voru friðlýst sem friðland árið 1979. Friðlandið er samtals 164,2 hektarar að stærð. Mikilvægt er að vernda Gullfoss svo að bæði vatnasvið hans og nærumhverfi haldist óskert. Gildi friðlandsins er fyrst og fremst fólgið í landslagi þess, mikilfenglegum jarðminjum og blómskrúðugu gróðurfari.

Samkvæmt aðferðafræði alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna (IUCN) um flokkun friðlýstra svæða þá flokkast Gullfoss undir flokk III.