Aðgengi og upplýsingar
Allt land innan friðlandsins er í einkaeigu og að því liggja 11 bæir. Aðgengi að friðlandinu er takmarkað og engar gönguleiðir hafa verið merktar. Skólarnir á svæðinu ásamt háskólum nýta sér svæðið til vettvangsferða og verkefnavinnu. Á tímabilinu 15.apríl til 15.júlí eru heimsóknir í eyjar og sker, aðrar en þær sem tengjast hefðbundnum nytjum, óheimilar. Að þessu tímabili undanskildu er hægt að heimsækja friðlandið allan ársins hring með leyfi landeigenda.
Friðlýsing
Grunnafjörður var friðlýstur árið 1994 og er svæðið friðland. Tilgangur friðlýsingarinnar var að vernda landslag og lífríki svæðisins, sér í lagi fuglalíf sem er mjög auðugt.
Árið 1996 var svæðið samþykkt sem Ramsar svæði. Svæðið hefur því verið verndað samkvæmt samþykkt um votlendi sem hefur alþjóðlegt gildi. Fjörðurinn er eina Ramsar svæðið á Íslandi sem liggur að sjó. Stærð Ramsar svæðisins er u.þ.b 1470 hektarar.
