Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Valmynd

Goðafoss

Goðafoss er einn af vatnsmestu fossum landsins. Hann greinist í tvo meginfossa og nokkra smærri. Ásýnd fossins er fjölbreytileg eftir vatnsmagni, veðurfari og árstíð.

Aðgengi og upplýsingar

Goðafoss er í Skjálfandafljóti í Þingeyjarsveit, rétt við bæinn Fosshól. Við Fosshól er veitingastaður, minjagripaverslun og salerni. Gönguleiðir liggja að fossinum bæði austan og vestan Skjálfandafljóts og tengir göngubrú þessi svæði saman. Gott aðgengi er á svæðinu fyrir hreyfihamlaða.

Landverðir í Mývatnssveit eru með eftirlit með svæðinu allt árið um kring.

Friðlýsing

Goðafoss í Skjálfandafljóti var friðlýstur sem náttúruvætti þann 11. júní 2020. Megin markmiðið með verndun svæðisins er að vernda sérstakar náttúruminjar, breytileika jarðmyndana og fossinn sjálfan, m.a. með því að viðhalda náttúrulegu vatnsrennsli í fossinn, vegna fegurðar og sérkenna og útivistargildis svæðisins. Svæðið er 0,224 km2 að stærð.

Samkvæmt skilgreiningu Alþjóða náttúruverndarsamtakanna IUCN fellur náttúruvættið í flokk III.

Skjöl tengd gerð stjórnunar- og verndaráætlunar