Svæðin eru aðgengileg og henta vel til útivistar, fræðslu og rannsókna fyrir áhugamenn jafnt sem vísindamenn. Innan þeirra eru merkar söguminjar, s.s. Berklastígur, sem var útivistarstígur sjúklinga frá berklahælinu á Vífilsstöðum og sk. Atvinnubótastígur, sem lagður var í atvinnubótavinnu frostaveturinn 1918, en var aldrei tekinn í notkun.
Friðlýsing
Garðahraun efra, Garðahraun neðra, Vífilsstaðahraun og Maríuhellar voru friðlýst sem fólkvangur í apríl 2014. Friðlýsingin var endurskoðuð og fólkvangurinn stækkaður í september 2021.
Markmið með friðlýsingunni er að tryggja aðgengi almennings að náttúru svæðisins til útivistar, náttúruskoðunar og fræðslu í þéttbýli. Markmið friðlýsingarinnar er jafnframt að vernda jarðmyndanir sem eru fágætar á heimsvísu, náttúrulegt gróðurfar og dýralíf. Með friðlýsingunni er stuðlað að eflingu lífsgæða í sveitarfélaginu með því að tryggja möguleika til útivistar, náttúruskoðunar og fræðslu í náttúrulegu umhverfi. Með vernduninni skal tryggt að jarð- og hraunmyndum, náttúrulegu gróðurfari, fuglalífi og menningarlegu gildi verði ekki spillt og einkenni þess og sérkenni varðveitt.
