Aðgengi og upplýsingar
Þjóðvegur 82 liggur þvert í gegnum Friðland í Svarfaðardal meðfram Hrísatjörn og yfir Svarfaðardalsá við Árgerði. Beggja vegna Svarfaðardalsár liggja Skíðadalsvegur (275) og Svarfaðardalsvegur (273) meðfram friðlandinu endilöngu og er þar víða gott útsýni yfir friðlandið og fuglalífið sem þar er að finna. Vegaútskot er á Skíðadalsvegi 275 við Saurbæjartjörn þar sem gott útsýni er yfir tjörnina og yfir að Ingólfshöfða. Vestan í Hrísahöfða er malarvegur sem liggur að malarnámum norðan við bæinn Hrísa.
Landvarsla er á svæðinu yfir sumartímann sem er sinnt af Náttúruverndarstofnun. Einnig er samningur við Dalvíkurbyggð um að aðili frá þeim sinni eftirliti með friðlandinu utan þess tíma.
Fræðsla
Friðlýsing
Svarfaðardalur var fyrst friðlýst árið 1972 en friðlýsingin var endurskoðuð árið 1980. Svæðið var friðlýst af frumkvæði landeigenda árið 1972 og nær það yfir einstakt votlendissvæði sem er varplendi fjölmargra fuglategunda við neðanverða Svarfaðardal. Stærð friðlandsins er 528,7 hektarar. Samkvæmt skilgreiningu Alþjóða náttúruverndarsamtakanna IUCN á friðlýstum svæðum flokkast Friðland í Svarfaðardal í flokk IV, það er að segja verndarsvæði búsvæða og tegunda.
