Friðlýsta svæðið Fossvogsbakkar nær yfir um 2 km langa strandlínu frá botni Fossvogs þar sem bæjarmörk Reykjavíkur og Kópavogs mætast og vestur að línu sem er 5 m frá affalslögn Hitaveitu Reykjavíkur í Nauthólsvík.
Aðkoma að svæðinu á ökutæki er best frá Nauthólsvegi að vestanverðu og Suðurhlíð að austanverðu. Þá liggja göngustígar úr Öskjuhlíð og Fossvogskirkjugarði niður að svæðinu að norðanverðu. Göngu- og hjólastígurinn sem liggur í austur-vestur meðfram Skerjafirði er að hluta inni í friðlandinu.
Auðveldast er að skoða jarðlögin ef gengið er niður í Fossvoginn á háfjöru en einnig eru þau ágætlega sýnileg ef staðið er á bökkunum en það getur þó verið varasamt að standa of nálægt brúninni því setlögin eru víðast hvar töluvert rofin af ágangi sjávar.
Aðgengi & upplýsingar
Friðlýsing
Fossvogsbakkar voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1999. Á svæðinu er að finna fágætar jarðminjar í jarðsögu Reykjavíkur og landsins alls, Fossvogslögin, og felst verndargildi svæðisins í verndun þeirra.
Náttúruvætti eru náttúrumyndanir sem mikilvægt er að varðveita sakir fræðilegs gildis, fegurðar eða sérkenna. Markmiðið með friðlýsingu Fossvogsbakka er verndun fágætra jarðminja svæðisins.
