Aðgengi og upplýsingar
Aðal aðkomustaður ferðamanna að Fjaðrárgljúfri er um bílastæði sunnan við minni gljúfursins við Holtsveg nr. 206. Þaðan liggur göngustígur upp með gljúfirnu með útsýnispöllum að bílastæði sem er norðarlega við gljúfrið að austan. Einnig er hægt að leggja á því bílastæði sem er á Lakaveg nr. F206, meðan sá vegur er opinn. Við aðalbílastæði er áningastaður fyrir gesti og salerni.
Þjónustugjöld eru á svæðinu sem eru innheimt af landeiganda.
Ekki er gert ráð fyrir almennri umferð göngufólks um gljúfrið sjálft enda engar merktar gönguleiðir. Samkvæmt friðlýsingarskilmálum er veiðimönnum heimilt að ganga um gljúfrið.
Gróðurvernd
Mikilvægt er að fylgja stígum og fara ekki út fyrir merktar gönguleiðir. Gróðurþekja svæðisins er viðkvæm og átroðingur mikill en svæðið gífurlega vinsælt. Þegar leysingar eða rigningar herja á getur góðurþekja borið mikinn skaða af ferðum utan stíga.

Fræðsla
Fjaðrárgljúfur er um 1,5 km á lengd og mesta dýpt um 100 m. Það er gott dæmi um virk ferli landmótunar sem hófst í lok síðustu ísaldar fyrir um 10.000 árum og er enn í gangi. Ofan við Fjaðrárgljúfur eru malarhjallar sem benda til þess að jökullón hafi myndast fyrir framan hörfandi jökul og vegna fyrirstöðu sem lá efst í núverandi gljúfri. Lónið hefur fyllst tiltölulega fljótt upp af framburði, en vatnsmiklar og aurugar jökulár áttu síðar auðvelt með að rjúfa sér farveg í undirliggjandi berggrunn úr móbergi. Innst í Fjaðrárgljúfri eru fossar og þó að Fjaðrá sé mun kraftminni en vatnsmiklu jökulárnar í lok ísaldar, þá er landmótun gljúfursins enn í gangi.
Friðlýsing
Hluti Fjaðrárgljúfurs í Skaftárhreppi var friðlýstur sem náttúruvætti árið 2024. Friðlýsta svæðið er um 0,15 km2 að stærð. Markmið með friðlýsingu Fjaðrárgljúfurs sem náttúruvættis er að vernda gróður og sérstætt landslag, jarðmyndanir, vatnsfarveg og fossa. Með vernduninni skal tryggt að jarðminjum og ásýnd svæðisins verði ekki spillt og einkenni þess og sérkenni varðveitt þar sem svæðið er sérstætt á landsvísu. Hið verndaða svæði er varðveitt til náttúruupplifunar fyrir almenning og er kappkostað að sem flestum verði gert fært að njóta svæðisins án þess að skerða náttúruverðmæti og/eða upplifun annarra útivistarhópa.
Samkvæmt skilgreiningu Alþjóða náttúruverndarsamtakanna IUCN fellur náttúruvættið í flokk III.
