Aðgengi og upplýsingar
Sigölduleið (208) liggur frá Sprengisandsvegi (F26) inn í Landmannalaugar. Fjallabaksleið nyrðri (F208), liggur á milli Landssveitar og Skaftártungu, í gegnum Friðland að Fjallabaki. Landmannaleið (F225) liggur frá veg 26 áleiðis í Landmannahelli um Dómadal og tengist inn á veg 208 við Frostastaðavatn. Skoðið ávallt færð á vegum áður en ekið er á hálendið.
Yfir sumartímann þurfa gestir sem koma akandi á eigin vegum á milli kl. 9 og 16 að bóka bílastæði fyrirfram og greiða þjónustugjald áður en komið er til Landmannalauga.
Bílastæðabókanir
Yfir sumartímann þurfa gestir sem koma akandi á eigin vegum á milli kl. 9 og 16 að bóka bílastæði fyrirfram og greiða þjónustugjald áður en komið er til Landmannalauga. Opnað verður fyrir bókanir snemma á árinu 2026.

Landmannalaugar
Landmannalaugar eru umvafnar miklum og litríkum fjallasal og fjölmargar gönguleiðir hefjast við skálasvæðið þar sem flest ættu að geta fundið leið við sitt hæfi. Einnig er þetta upphafsstaður Laugavegsins, sem er sennilega þekktasta gönguleið landsins.
Friðlýsing
Friðland að Fjallabaki var friðlýst árið 1979. Megin einkenni svæðisins eru fjölbreytt landslag og landslagsheildir, mikill breytileiki jarðminja og jarðhitafyrirbæra, sérstakt en viðkvæmt lífríki, víðerni, kyrrð og litadýrð. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda þessar sérstæðu jarðminjar, landslag, lífríki og ósnortin víðerni svæðisins. Friðlandið er 446,24 km2 að stærð.
