Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Valmynd

Eldborg í Hnappadal

 Eldborg er stærstur gíga á stuttri gossprungu, gígurinn er um 200m að lengd og 50m á dýpt. Talið er að þar hafi orðið tvö gos og það síðara sennilega á landnámsöld. Eldborg er hluti af eldstöðvarkerfi Ljósufjalla.

Aðgengi og upplýsingar

Eldborg er í miðju Eldborgarhrauni í Hnappadal 38 km norðan Borgarnes. Gengið er frá Snorrastöðum, en þaðan liggur gönguleið í gegnum kjarrivaxið hrauni 3.4 km. Ferðaþjónusta er á Snorrastöðum og þar er að finna bílastæði og salernisaðstöðu. Svæðið er opið allt árið, en aðgengi getur orðið erfitt þegar snjór er mikill og því ber að hafa varann á sér. Svæðið er í umsjón Umhverfisstofnunar, heilsárslandvarsla er við Eldborg.

Gönguleiðin upp á Eldborg er fjölbreytt þar sem gengið er í gegnum kjarri vaxið hraun. Fallegar hraunmyndanir eru á leiðinni og ef vel er að gáð má vel sjá margar kynjaverur. Ofan af Eldborg er mikið útsýni í allar áttir. Í góðu skyggni má sjá fjallahring allt frá Snæfellsjökli og að Reykjanesi.

Umgengnisreglur

  • Breytingar á landi, mannvirkjagerð og jarðrask allt er bannað.
  • Gangandi fólki er heimil för um svæðið, en öllum er skylt að sýna varúð, svo að ekki spillist gróður eða minjar. Fólk er hvatt til að fara merktar gönguslóðir í hlíðum gíganna og annars staðar, þar sem það á við.
  • Umferð hvers konar ökutækja er óheimil.
  • Umferð ferðafólks með hross á svæðinu er háð leyfi og beit stranglega bönnuð.
  • Heimilt er að takmarka beit búfjár, ef það þykir nauðsynlegt vegna gróðurs svæðisins. Girðingar skulu settar í samráði við heimamenn.

Öllum er heimil för um svæðið. Göngum vel um og berum virðingu fyrir náttúrunni og öðrum gestum.

Friðlýsing

Eldborg var friðlýst sem náttúruvætti árið 1974. Eldborg er sporöskjulaga eldgígur sem rís 100m yfir sjávarmál en 60m yfir hrauninu í kring. Eldborg er stærstur gíga á stuttri gossprungu, gígurinn er um 200m að lengd og 50m á dýpt. Talið er að þar hafi orðið tvö gos og það síðara sennilega á landnámsöld. Eldborg er hluti af eldstöðvarkerfi Ljósufjalla.