Aðgengi og upplýsingar
Einkunnir draga nafn sitt af þremur klettaborgum sem rísa upp af mýrlendi. Nafn svæðisins kemur fyrir í Egilssögu, en orðið einkunnir var notað um auðkenni í landslagi. Klettaborgirnar sem svæðið er kennt við, sjást víða og af Syðri–Einkunnum er víðsýnt um allan Borgarfjörð, Borgarfjarðardali og mýrar. Skógrækt hefur lengi verið stunduð á svæðinu og vex þar nú myndarlegur skógur. Nálægð við þéttbýli og gott aðgengi gerir svæðið ákjósanlegt til fræðslu og útikennslu.
Einkunnir eru rétt fyrir utan þéttbýli Borgarness. Til að komast inn á svæðið er farið um malarveg sem liggur frá þjóðvegi eitt til norðurs í gegnum hesthúsahverfi gegnt golfvellinum að Hamri. Göngustígar liggja um svæðið og má finna gönguleiðir sem henta flest öllum. Göngustígar um svæðið hafa verið stikaðir og kurl komið í hluta þeirra. Um fólksvanginn liðast 13 km af göngustígum. Svæðið er opið allt árið og umsjón með svæðinu er í höndum sveitarfélagsins Borgarbyggðar.
Umgengisreglur
- Óheimilt er að hrófla við gróðri og jarðmyndunum eða trufla dýralíf.
- Búfjárbeit og meðferð skotvopna er bönnuð.
- Óheimilt er að hafa hunda í fólkvanginum án fylgdar og tryggrar stjórnar.
- Akstur vélknúinna farartækja utan akvega er óheimill í fólkvanginum.
Öllum er heimil för um svæðið. Göngum vel um og berum virðingu fyrir náttúrunni og öðrum gestum.
Friðlýsing
Einkunnir í Borgarbyggð voru friðlýstar sem fólkvangur árið 2006. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda jarðmyndanir og votlendi í þágu útivistar, náttúruskoðunar og fræðslu fyrir almenning.
