Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Valmynd

Dyrhólaey

Dyrhólaey er 120 m hár móbergsstapi sem hefur myndast í eldgosi í sjó. Dyrhólaey dregur nafn sitt af gatkletti sem blasir við þegar komið er að stapanum frá vestri og austri og lítur út eins og stór og mikil dyr í þverhníptu standberginu.

Aðgengi og upplýsingar

Gott aðgengi er að Dyrhólaey frá þjóðvegi 1, Suðurlandsvegi. Austan við Pétursey er ekið niður Dyrhólaveg, veg nr. 218, hjá Litlahvammi í Mýrdal, um Vatnsskarðshóla að Dyrhólaey. Vegurinn greinist í eynni og liggur annarsvegar að Lágey og hins vegar upp á Háey. Á Lágey er bílastæði og salerni sem er opið allt árið. Á Háey eru færri bílastæði og vegurinn þangað getur verið varasamur á veturnar.

Landvörður hefur viðveru á svæðinu allt árið um kring.

Friðlýsing

Verndargildi Dyrhólaeyjar felst fyrst og fremst í fuglalífi svæðisins. Dyrhólaey var friðlýst árið 1978 sem friðland vegna mikilvægi þess að varðveita landsvæðið sakir sérstaks landslags, gróðurfars eða dýralífs. Stærð friðlandsins er 1,51 km2. Samkvæmt skilgreiningu Alþjóða náttúruverndarsamtakanna IUCN á flokkun friðlýstra svæða er flokkur V, verndað landslag, sá sem einna best getur átt við Dyrhólaey.