Beint í efni
  • Þjónustugátt
  • Kortasjá
  • Leit
  • Valmynd

Dimmuborgir

Dimmuborgir eru tröllslegt völundarhús sem varð til í eldgosi fyrir um 2.300 árum. Hraundrangar sem þessir eru nokkuð algengir á hafsbotni, en sjaldgæfir á landi.

Aðgengi og upplýsingar

Dimmuborgir eru í Mývatnssveit á Norðausturlandi. Þær eru rúmlega kílómeter austan við bæina að Geiteyjarströnd og liggur malbikaður vegur að Dimmuborgum frá Geiteyjarströnd. Við bílaplanið við Dimmuborgir er þjónustuhús með salernisaðstöðu, veitinga og minjagripaverslun.

Landverðir í Mývatnssveit sinna landvörslu á svæðinu og eru daglegar fræðslugöngur á sumrin.

Friðlýsing

Dimmuborgir voru friðlýstar sem náttúruvætti árið 2011 vegna sérstakra hraunmyndana og landslags. Náttúruvættið er rúmlega 423 hektarar að stærð.

Markmiðið með friðlýsingu Dimmuborga sem náttúruvættis er að vernda sérstæðar jarðmyndanir. Jafnframt er það markmið með friðlýsingunni að varðveita jarðmyndanir svæðisins vegna mikils fræðslu- og útivistargildis, en svæðið í heild sinni hefur um langan tíma verið afar vinsæll útivistarstaður heimamanna og viðkomustaður gesta sem um Mývatnssveit fara.

Dimmuborgir hafa verið i umsjón Land og Skóg síðan 1942 en þá gáfu landeigendur í Geiteyjarströnd og Kálfaströnd Sandgræðslu ríkisins (nú Land og Skógur) landið því þeir sáu ekki fram á að geta varið svæðið fyrir ágangi sands sem leitaði inn í borgirnar og kaffærði. Land og Skógur hefur unnið metnaðarfullt árangursríkt starf í landgræðslu á svæðinu. Einnig hefur Land og Skógur staðið fyrir uppbyggingu svæðisins sem áfangastaðar fyrir ferðamenn í samstarfi við Náttúruverndarstofnun.