Á Bessastaðanesi eru fjölbreyttar fjörur og grunnsævi með auðugu lífríki sem eru mikilvæg fæðusvæði fugla. Í Lambhúsatjörn er m.a. vistgerðin marhálmsgræður sem einkennist af fínkornóttu seti með beðum af marhálmi sem hefur takmarkaða útbreiðslu og er mikilvæg fæða fyrir ýmsar andfuglategundir s.s. margæsir. Á Bessastaðanesi eru tún og akurlendi en einnig votlendi. Verndargildi vistgerðanna á svæðinu er frá því að vera miðlungs hátt og upp í mjög hátt og eru votlendisvistgerðirnar starungsmýravist, gulstaraflóavist og marhálmsgræður á lista Bernarsamningsins yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.
Fræðslugildi svæðisins er hátt með tilliti til lífríkis og menningarminja en þar er fjöldi menningarminja.
Á Bessastaðanesi er þjóðhöfðingjasetur.
Friðlýsing
Þann 30. júní 2023 undirritaði umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, auglýsingu um friðlýsingu Bessastaðaness sbr. 49. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd og náttúruverndaráætlun 2004-2008.

Markmið friðlýsingarinnar
Markmið friðlýsingarinnar er að vernda og varðveita til framtíðar náttúrulegt ástand svæðisins sem búsvæði fugla og mikilvægt viðkomusvæði farfugla. Markmiðið er einnig að vernda líffræðilega fjölbreytni svæðisins, lífríki í fjöru, grunnsævi, hafsbotni og vatnsbol, einkum með tilliti til fugla. Jafnframt er markmiðið að vernda fræðslu- og útivistargildi svæðisins sem felst m.a. í líffræðilegri fjölbreytni, auðugu lífríki, tækifærum til útivistar innan þéttbýlis og nýtingar sem samrýmist verndun búsvæða fugla.
Svæðið er 4,45km2 að stærð.
