Aðgengi og upplýsingar
Álfaversgígar eru staðsettir við byggðina í Álftaveri, austan við Mýrdalssand. Beygt er austur sunnan við brúnna yfir Skálm til að komast að gígunum. Bílastæði er við veginn og hægt er að ganga upp á einn gíganna og fá útsýni yfir svæðið.
Landverðir á vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs sinna eftirliti með svæðinu.
Fræðsla
Álftaversgígar mynduðust í Eldgjárgosinu (937 til 940) þegar hraun rann yfir votlendi. Eldgjárhraunið flæddi um 70 km leið niður í átt til sjávar í nokkrum hrauntaumum. Stærstu taumarnir eru nefndir Álftavershraun, Meðallandshraun og Landbrotshraun.
Gervigígar líkjast eldgígum en eru án gosrásar og mynda þyrpingar. Þeir myndast þegar hraun rennur yfir grunnt vatn eða votlendi. Glóandi heitt hraunið hvellsýður vatnið sem síðan brýst upp með gufusprengingum og látum. Yfirborð þeirra er því úr þykku gosgjalli.
Byggðin í Álftaveri er talin hafa eyðst í Eldgjárgosinu vegna jökulflóða og hraunflæðis en eftir myndun gíganna hafa þeir verndað byggðina að miklu leyti fyrir jökulhlaupum frá Kötlu.
Friðlýsing
Álftaversgígar voru friðlýst náttúruvætti árið 1975. Stærð náttúruvættisins er 3436,1 hektarar. Markmiðið með friðlýsingunni er að vernda sérstæðar jarðminjar.
