Hvað er CITES?
CITES er alþjóðlegur samningur um alþjóðaverslun með tegundir í útrýmingarhættu. Ísland gerðist aðili að CITES-samningnum árið 2000 og var hann innleiddur með reglugerð. Leyfisveitingar vegna samningsins hér á landi eru í höndum Náttúruverndarstofnunar vegna dýra og plantna nema nytjastofna sjávar og Fiskistofu vegna nytjastofna sjávar. Náttúrufræðistofnun og Hafrannsóknastofnun veita vísindalega ráðgjöf vegna samningsins.
Hvað gerist á ráðstefnunni?
Á ráðstefnunni munu aðildarríki endurskoða og ræða tillögur um breytingar á tegundum á CITES-viðaukunum. Viðaukarnir eru þrír talsins og innihalda lista yfir tegundir sem takmarkanir á alþjóðaverslun gilda um. Misstrangar reglur gilda um hvern viðauka. Sumum tegundum verður bætt við viðaukana, aðrar fjarlægðar og öðrum hliðrað til. Einnig verða almennar reglur sem snerta milliríkjaverslun dýra og plantna til umfjöllunar.
Á ráðstefnunnni verða hinar ýmsu tegundir ræddar og má nálgast lista yfir tillögurnar í heild sinni á CoP20 vefsíðu CITES. Sú tillaga sem gæti haft mest áhrif á Ísland er að færa allar álategundir undir viðauka II. Á Íslandi finnast tvær álategundir, evrópski állinn og ameríski állinn (sem og blendingar). Evrópski állinn er nú þegar á viðauka II en breytingin myndi valda því að sá ameríski fari einnig þar undir. Tillagan er sett fram af Evrópusambandinu og Panama, af þeim ástæðum að eftirlit með álaviðskiptum þykir erfitt þar sem að ungir álar á glerálastigi eru nánast óaðgreinanlegir í útliti.
Hvað gerir Ísland á ráðstefnunnni?
Hlutverk Íslands á CoP20 snýr einkum að því að fylgjast með og taka þátt í ákvörðunum um tegundir, þar sem íslensk stjórnvöld munu leggja áherslu á sjálfbæra nýtingu og vernd líffræðilegrar fjölbreytni. Með þátttöku sinni styður Ísland mikilvægt alþjóðlegt samstarf CITES-samningsins sem snýr að því að bregðast við ólöglegri verslun með tegundir í útrýmingarhættu.
-1920x1080.png&w=3840&q=80)