Gildi óbyggðra víðerna fyrir núverandi og komandi kynslóðir er ótvírætt; í auðninni er hægt að upplifa náttúru í nær óspilltu umhverfi, þar gefst tækifæri til einveru og þar getur maðurinn reynt á eigin hæfileika og kunnáttu fjarri nútímaþægindum. Þá eru víðerni einnig mikilvæg lífríkinu og þróun þess utan áhrifasvæðis mannsins.
Á Íslandi eru víðáttumikil óbyggð víðerni sem eru stór landsvæði þar sem ummerkja mannsins gætir lítið sem ekkert og náttúran fær að þróast án álags af mannlegum umsvifum. Þau eru hluti af helstu víðernum Evrópu. Víðerni eru auðlind sem á undir högg að sækja, ekki eingöngu á Íslandi heldur um heim allan.
